Fjallkona 2017

Fjallkona árið 2017 var Þóra Einarsdóttir en ávarp fjallkonunnar var eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur

1

og hér

stend ég enn

staðkyrr                                                   

með tertuna í höndunum

á miðjum vegi

 

já, það er óhætt

að kalla hann þjóðveg

 

umferðin er í báðar áttir;

heyvagnar, tjaldvagnar, skriðdrekar,

bjöllur

og

stundum er gusturinn slíkur

að hann feykir

pilsum

 

– gettu í hverju ég er –

 

þá hverf ég um hríð

í hvarmskóg,

hugsa um laungáfað hraunið

sem lúrir

 

2

en bregði ég sundur augum aftur

hafa börn

leikið hollí-hú,

hengt glæný skilti

á skemmur og skyggni:

það er allt annað mál

 

þá herði ég tak,

tygg eldgömul heiti, allt

þar til

hrekkur blóð af vör

 

3

ég er með bláan

æðahnút,

hárauð hrútaber á hvítum marens

 

og umferðin þyngist

 

4

um leið er spurt hvort einhver hafi

þegar

hlotið sneið af kökunni

– það kann ég síður við að gefa upp

 

ég hef ósjaldan

sveigst

undan andbyr og ásókn

 

skýli samt alltaf bjarma á skari

 

5

og þaðan sem fölan

fald minn

nemur við nyrsta baug

 

sé ég skorpufólk

klífa og flytja fjöll,

fljúgast á

eins og tófur í púðri …

 

hér er ennfremur gengið

á grátklökka jökla

 

6

í því

hefur drifið að

þvalar hendur

þögla lófa

sem lyfta undir tertuna

 

– gettu hvað afmæliskertin eru mörg –

 

sumir hafa með sér

flóknar sorgir,

aðrir fara með löndum, í leik

 

7

og ég slétti úr pilsum

slæ ljósi á öxl

á þrautabraut

á þúsund brár

 

spyr bláklukkuna hvað tímanum líði

 

það er byrjandi vetur

það er blásandi vor

 

en fast uppi við brjóstið

er

blævalogn